Stórleikur Ragnheiðar skóp sigurinn

Úr leik Fram og Vals í kvöld.
Úr leik Fram og Vals í kvöld. Styrmir Kári

Fram sigraði Val, 22:19, í 26. og síðustu umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik. Fram hafnar í 3. sæti deildarinnar, með 41 stig en Valur í því 5. með 38 stig.

Fram mætir því ÍBV í átta liða úrslitunum og Valur mætir Stjörnunni sem hafnar í fjórða sæti.

Gestirnir frá Hlíðarenda byrjuðu leikinn betur og náðu fljótlega tveggja marka forskoti, 4:2. Framarar jöfnuðu metin þó fljótlega og frá því að staðan var 5:5 var jafnt á öllum tölum.

Gestirnir skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks, það gerði hornamaðurinn Íris Ásta Pétursdóttir með þrumuskoti og Valur með eins marks forystu, 11:10 þegar liðin gengu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik. Ragnheiður Júlíusdóttir fór á kostum í liði Fram í fyrri hálfleik en hún skoraði 6 af 10 mörkum liðsins. Hjá Val var Morgan Marie Þorkelsdóttir markahæst með 3 mörk.

Valur hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoraði fjögur fyrstu mörk hálfleiksins. Fram svaraði því með 6:0 spretti og náði undirtökunum og lét þau aldrei af hendi, Fram sigraði að lokum, 22:19.

Fyrst og fremst var það stórleikur Ragnheiðar Júlíusdóttur sem skóp sigurinn hjá Fram. Hún var markahæst á vellinum, skoraði 10 mörk, þrátt fyrir að vera tekin úr umferð lengi vel. Morgan Marie Þorkelsdóttir var atkvæðamest gestanna með 5 mörk.

Fram 22:19 Valur opna loka
60. mín. Guðrún Ósk Maríasdóttir (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert