Arnar Pétursson áfram með ÍBV

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV Eva Björk Ægisdóttir

Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handbolta, framlengdi í dag samning sinn við félagið en hann gildir út næsta tímabil. Þá framlengdu Magnús Stefánsson, fyrirliði liðsins, og Ester Óskarsdóttir, fyrirliði kvennaliðsins, samninga sína. Þetta kom fram í tilkynningu frá ÍBV í dag.

Þau skrifuðu öll undir eins árs samning en Magnús og Ester skrifuðu undir samning sinn hjá umboðsmanni Ölgerðarinnar í Vestmannaeyjum, Heildverslun Karls Kristmanns, sem hefur verið einn helsti styrktaraðili ÍBV síðustu ár.

Arnar hefur verið í þjálfarastörfum fyrir ÍBV síðustu sex árin en hann hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið félagsins. Hann hefur náð fínum árangri með liðið í ár en það er komið í úrslitakeppni Olís-deildarinnar. Liðið mætir þar Gróttu í fyrsta leik eftir þrjá daga.

Magnús Stefánsson, fyrirliði karlaliðsins, framlengdi þá samning sinn um eitt ár í dag, sem og Ester Óskarsdóttir, fyrirliði kvennaliðsins, en kvennalið ÍBV mætir Fram í fyrsta leik í úrslitakeppninni á miðvikudag.

Magnús kom til ÍBV árið 2011 og hefur verið mikilvægur hlekkur í liðinu síðan þá en Ester er uppalin í ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert