„Allir þættir í leik okkar voru betri en í fyrsta leiknum á laugardaginn. Menn gáfu aukalega í þennan leik,“ sagði Geir Guðmundsson, stórskytta Vals, sem skoraði níu mörk þegar lið hans vann Aftureldingu, 26:23, í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í N1-höllinni að Varmá í Mosfellsbæ í gærkvöldi. Valur hafði tveggja marka forskot í nesti inn í buningsklefa að loknum fyrri hálfleik, 13:11.
Þar með hefur hvort lið einn vinning í rimmunni. Næsta viðureign fer fram í Valshöllinni á fimmtudagskvöldið.
Leikmenn Vals höfðu frumkvæði í leiknum frá upphafi til enda. Mosfellingar voru skrefi á eftir í 45 mínútur og síðustu 10 mínúturnar virtust þeir hafa lagt árar í bát, að minnsta kosti flestir leikmenn liðsins.
„Undir lok fyrri hálfleiks fannst mér við vera að ná tökum á leiknum en náðum ekki að fylgja því eftir í byrjun síðari hálfleiks og Valsmenn náðu yfirhöndinni á nýjan leik,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Afttureldingar. „Auk þessa gerðum við allt of mikið af mistökum, töpuðum boltanum til dæmis fimmtán sinnum, þar af fimm sinnum á mjög einfaldan og klaufalegan hátt. Það er ekki boðlegt gegn Val,“ sagði Einar.
Fjallað er um leiki gærdagsins í úrslitakeppni karla í handbolta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.