Afturelding leikur til úrslita gegn Haukum um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik eftir sigur á Val 25:24 eftir framlengdan oddaleik á Hlíðarenda. Afturelding vann undanúrslitarimmu liðanna 3:2 og bikarmeistarar Vals eru úr leik.
Leikurinn var mjög spennandi bæði undir lok venjulegs leiktíma sem og undir lok framlengingar. Afturelding var yfir 12:9 að loknum fyrri hálfleik og hafði fimm marka forskot þegar innan við tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þá náðu Valsmenn frábærum kafla og átu upp fimm marka forskot á liðlega þremur mínútum. Valur fékk tækifæri til að komast yfir en nýtti það ekki. Afturelding komst aftur yfir en Vignir Stefánsson knúði fram framlengingu með marki úr þröngu færi í horninu þegar 7 sekúndur voru eftir.
Í framlengingunni náði Afturelding tvegja marka forskoti. Þegar Valsmenn reyndu að jafna á lokamínútnum hrökk Davíð Svansson í gríðarlegt stuð í marki Mosfellinga. Varði han ntil að mynda vítakast og nokkur önnur skot á lokakaflanum. Valur fékk engu að síður tækifæri til að jafna en liðið fékk boltann þegar 7 sekúndur voru eftir. Guðmundur Hólmar skaut föstu skoti á síðustu sekúndunni sem hafnaði í stönginni á marki Aftureldingar.
Afturelding leikur því til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í annað skiptið á jafn mörgum árum og mæta þar Haukum sem urðu deildameistarar í Olís-deildinni og eiga þar af leiðandi heimaleikjaréttinn. Haukar eru ríkjandi meistarar eftir að hafa unnið úrslitarimmu þessara liða í fyrra.