Aðalheiður til liðs við Stjörnuna

Aðaheiður Hreinsdóttir, hér fremst í búningi Vals, verður samherji Guðrúnar …
Aðaheiður Hreinsdóttir, hér fremst í búningi Vals, verður samherji Guðrúnar Erlu Bjarnadóttur og Hönnu Guðrúnar Stefánsdóttur í Stjörnunni á næsta keppnistímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleikskonan Aðalheiður Hreinsdóttir hefur gengið til liðs við bikarmeistara Stjörnunnar. Hún hefur skrifað undir tveggja ára samning við Garðabæjarliðið sem komið er í úrslit Íslandsmótsins. Aðalheiður verður þó ekki lögleg með liðinu fyrr en á næsta keppnistímabili.

Aðalheiður hefur undanfarin ár leikið með Val. Hún var úti í Bandaríkjunum fyrri hluta nýliðins vetrar en varð gjaldgeng á ný með Val eftir áramótin.

Aðalheiður þekkir vel til í herbúðum Stjörnunnar. Hún varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu vorið 2009 þegar kvennalið Stjörnunnar hampaði síðast Íslandsbikarnum. Nokkrir leikmenn Íslandsmeistaraliðsins 2009 leika enn með Stjörnunni og má þar nefna Esther Viktoríu Ragnarsdóttur, Sólveigu Láru Kjærnested og Þórhildi Gunnarsdóttur.

Þess má geta að fyrsti úrslitaleikur Stjörnunnar og Gróttu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna verður háður í dag. Leikurinn fer fram í Seltjarnarnesi og hefst kl. 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert