Staðan er 1:1 í úrslitarimmu Hauka og Aftureldingar í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik eftir 28:25 sigur Hauka í N1-höllinni að Varmá í öðrum leik liðanna í kvöld.
Liðin mætast næst á Ásvöllum, heimavelli Hauka, á laugardaginn klukkan 16 en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Afturelding vann þar fyrsta leikinn 34:31.
Mosfellingar virtust sterkari í fyrri hálfleik í kvöld og höfðu yfir 12:10 að honum loknum. Leikurinn var svo sem í járnum en Mosfellingar náðu þó þriggja marka forskoti. Hafnfirðingar skoruðu fyrstu tvö mörkin í síðari hálfleik og í framhaldinu skiptust liðin á að hafa eins marks forskot.
Um miðjan síðari hálfleik sigu Haukarnir fram úr. Vörn þeirra var þá mun öflugri og uppstilltur sóknarleikur Aftureldingar gekk þá illa. Haukar náðu að koma sér upp fimm marka forskoti þegar 9 mínútur voru eftir og náðu mest sex marka forskoti. Afturelding náði ágætum endaspretti og minnkaði muninn niður í tvö mörk en þá voru einungsi 50 sekúndur eftir. Haukarnir lönduðu sigrinum sem var væntanlega lífsnauðsynlegt fyrir þá enda ekkert grín að lenda 0:2 undir í úrslitarimmu.
Haukarnir eru nú búnir að vinna heimaleikjaréttinn til baka ef svo má segja þar sem fyrstu tveir leikirnir hafa unnist á útivelli. Haukar urðu í efsta sæti í Olís-deildinni og eiga þar af leiðandi heimaleikjaréttinn.
Maður leiksins í kvöld, alla vega hvað sóknina varðar, var Janus Daði sem var mjög áræðinn fyrir Haukana. Varnarmenn Aftureldingar lentu í miklum vandræðum þegar hann keyrði á vörnina og alls skoraði Janus 8 mörk. En hann átti einnig fjölda stoðsendinga. Frammistaða hans var ekki síst mikilvæg fyrir þær sakir að Mosfellingum gekk nokkuð vel að halda aftur af Adam og Elíasi. Egill Eiríksson fékk tækifæri fyrir utan og nýtti það nokkuð vel. Var býsna klókur og naut sín vel þegar Afturelding reyndi að fara í 5-1 vörn. Jón Þorbjörn nýtti skotin sín vel í seinni hálfleik eftir að hafa lent í basli gegn Davíð í þeim fyrri og skoraði alls 6 mörk. Morkunas varði ekki nema 10 skot en varði hins vegar á nokkrum mikilvægum augnablikum í síðari hálfleik.
Davíð Svansson varði mjög vel fyrir Aftureldingu og var með 19 skot þar af tvö víti. Aftureldingu tókst ekki að nýta sér það og liðið hefði þurft á fleiri hraðaupphlaupsmörkum að halda því uppstilltur sóknarleikur gekk erfiðlega hjá liðinu um tíma í síðari hálfleik. Fyrir það ber að hrósa vörn Hauka sem tókst til dæmis að halda nokkuð vel aftur af Jóhanni Gunnari Einarssyni sem er Aftureldingu svo mikilvægur í sókninni. Pinnonen var atkvæðamikill með 5 mörk en ákvarðanatakan hjá honum var ekki alltaf eins og best verður á kosið. Guðni var seigur í fyrri hálfleik og Jóhann Jóhanns og Árni Bragi fóru að láta að sér kveða á lokakaflanum en þá var það heldur seint.
Framundan gæti verið fimm leikja rimma. Vonandi verður það raunin fyrir handboltaunnendur en stemningin í Mosfellsbænum í kvöld var afar góð. Vel mætt og gríðarleg læti. Fyrstu tveir leikirnir hafa unnist á útivelli og gerir það framhaldið síður fyrirsjáanlegt.