Handknattleikskonan Þorgerður Anna Atladóttir er á heimaleið og gengur til liðs við Stjörnuna. Hún hefur síðustu þrjú árin verið ytra, eitt ár hjá Flint Tönsberg í Noregi en eftir það hjá þýska stórliðinu Leipzig.
Þorgerður Anna er 23 ára gömul. Hún var í Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar 2009 og lék áfram með liðinu til 2011. Eftir það gekk Þorgerður Anna til liðs við Val og var tvær leiktíðir á Hlíðarenda áður en hún fór til Noregs.
Þorgerður Anna hefur verið einstaklega óheppin með meiðsli síðustu ár. Þau hafa meira eða minna haldið henni frá keppni í nærri þrjú ár. Síðast fékk hún brjósklos í lok síðasta árs. Endurhæfing gengur vel eftir því sem næst verður komist og bjartsýni ríkir á að hún geti leikið með Stjörnunni á næsta keppnistímabili.