Línumaðurinn Jón Þorbjörn Jóhannsson skoraði sex mörk fyrir Hauka þegar Íslandsmeistararnir jöfnuðu úrslitarimmuna gegn Aftureldingu 1:1 í Mosfellsbænum í kvöld.
Haukar sigruðu 28:25 en Afturelding var yfir 12:10 að loknum fyrri hálfleik. Þá átti Jón í vandræðum í sókninni og brenndi af þremur dauðafærum. Hann lagaði það til í síðari hálfleik og skoraði þá fimm mörk.
„Maður er búinn að vera í þessu svo lengi og það þarf meira en þetta til að slá mann út af laginu. Ég þarf að skjóta á Gogga á æfingum og hann getur gert mann brjálaðan. Það þýðir ekkert að svekkja sig á því. Þá er bara næsta skot,“ sagði Jón Þorbjörn meðal annars í samtali við mbl.is í kvöld en viðtalið við Jón í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.