„Við klikkuðum of oft“

Janus Daði skoraði 5 mörk fyrir Hauka í dag.
Janus Daði skoraði 5 mörk fyrir Hauka í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Janus Daði Smárason var sjálfsgagnrýninn þegar niðurstaðan lá fyrir á Ásvöllum í dag þar sem Afturelding vann Hauka 42:41 eftir tvær framlengingar og tók forystu 2:1 í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. 

Haukar voru tveimur mörkum yfir og með boltann þegar rétt rúm mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Spurður um hvort Haukar hafi ekki þar kastað frá sér unnum leik sagði Janus svo vera. 

„Jú það er alveg rétt. Við misstum boltann í fyrra skiptið í einhverjum aulagangi og í seinna skiptið klikkaði ég á dauðafæri. Við klikkuðum einfaldlega of oft í þessum leik,“ sagði Janus sem sagði í ljósi árangurs Hauka í vetur þá ætti liðið að geta unnið tvo leiki í röð eins og liðið þarf nú að gera til að verða meistari.

„Líkurnar á því að vinna tvo í röð eru bara góðar held ég. Við höfum verið á „rönni“ í allan vetur og þekkjum það alveg að vinna. En fyrst þurfum við að vinna leikinn á mánudaginn og skoðum þá stöðuna í framhaldi af því. Á milli leikja er bara hægt að vinna í litlum atriðum hér og þar. Mér finnst svona rimmur snúast meira um að bregðast við á meðan leik stendur. Þar höfum við verið flottir finnst mér og vorum það einnig í dag þar til við köstuðum þessu frá okkur undir lok venjulegs leiktíma,“ sagði Janus Daði við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert