Hjörvar Ólafsson
„Þetta var mjög skemmtilegur leikur og ég er eiginlega orðlaus ég er svo glöð. Við vorum búnar að ákveða það að þetta yrði okkar síðasti leikur í vetur og Íslandsmeistarabikarinn færi á loft í dag. Það tókst og er af þeim sökum virkilega ánægð,“ sagði Lovísa Thompson sem var markahæst í liði Gróttu með sjö mörk þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 28:23 sigri sínum gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi deildarinnar í dag.
„Ég er eiginlega ekki búinn að átta mig á því að ég er Íslandsmeistari annað árið í röð. Ég mun skoða myndir og fara yfir leikinn í huganum á næstu dögum á þá mun þetta síast inn í kollinn á mér. Nú er ég bara að njóta augnabliksins og fagna með liðsfélögunum og okkar frábæru stuðningsmönnum,“ sagði Lovísa í samtali við mbl.is eftir leikinn.
„Mér fannst ofboðslega gaman að taka þátt í þessum leik og þetta var mun þægilegri leikur en þegar við tryggðum okkur Íslandsmeistaratitilinn á lokasekúndunum síðasta vor. Ég hlakka mjög til þess að fagna þessu vel og innilega með fólkinu sem hefur staðið á bakvið okkur í allan vetur og hjálpað okkur mikið að ná markmiði okkar,“ sagði Lovísa um leikinn og kvöldið sem framundan er.