Haukar eru Íslandsmeistarar karla í handknattleik annað árið í röð. Haukar og Afturelding mættust í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Schenker-höllinni á Ásvöllum og þar höfðu Haukar betur 34:31.
Hvort lið hafði unnið tvo leiki í þessari rimmu og því var leikið til úrslita í kvöld. Haukar áttu heimaleikjaréttinn eftir að hafa hafnað í efsta sæti í deildakeppninni í vetur.
Haukar náðu frumkvæðinu strax í fyrri hálfleik og höfðu fjögurra marka forskot að honum loknum 15:11. Í síðari hálfleik gengu Haukar á lagið og náðu mest níu marka forskoti. Það var hins vegar ekki nóg til að brjóta baráttuglaða Mosfellinga sem reyndu eins og þeir gátu. Minnkuðu muninn niður í þriggja marka mun á lokakaflanum en komust ekki lengra. Davíð Svansson lokaði þá markinu um tíma og Afturelding skoraði hvert markið á fætur öðru úr hröðum sóknum. Myndaðist þá smá spenna en þessi kippur kom of seint fyrir Mosfellinga.
Hákon Daði Styrmisson var enn einu sinni atkvæðamikill hjá Haukum og skoraði 10/2 mörk. Adam Haukur Baumruk skoraði 7 og Elías Már Halldórsson 6. Árni Bragi var markahæstur hjá Aftureldingu eins og oft áður með 8/2 mörk Pétur Júníusson og Mikk Pinnonen gerðu 4 mörk hvor.
Liðin mættust einnig í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra en þá unnu Haukar 3:0 sigur í úrslitarimmunni. Haukar slógu ÍBV út í undanúrslitum en Afturelding vann þá Val.