„Ruddalegur Wilbek í valdabaráttu við Guðmund“

Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta …
Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta ólympíugull í karlaflokki í handknattleik. AFP

Það var alveg vitað að eitthvað meira yrði úr frétt TV 2-fréttastöðvarinnar um mál Ulriks Wilbek og Guðmunar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara nýkrýndra danskra ólympíumeistara í handknattleik karla, í gær. Í dag bættist við umfjöllun BT um málið sem kryddar það heldur betur. 

Líkt og fjallað hefur verið um á mbl.is hékk starf Guðmundar Guðmundssonar sem landsliðsþjálfara Dana á bláþræði á nýafstöðnum Ólympíuleikum í Ríó þar sem yfirmaður handknattleiksmála hjá danska handknattleikssambandinu og fyrrum þjálfari þess, Ulrik Wilbek, fundaði með sex af reyndustu leikmönnum liðsins án viðveru Guðmundar, þjálfara þeirra. Nú er vitað hvaða leikmenn það voru.

Frétt mbl.is: Fundaði með leikmönnum án Guðmundar

Þeir Guðmundur og Wilbek prýða forsíðu BT í dag þar sem hvergi er slegið af í fyrirsögnum: „Var klár í brottrekstur á miðjum ÓL“ með undirfyrirsagnirnar, „Svakalegt drama í Ríó“ og „Ruddalegur Wilbek í valdabaráttu við Guðmund.“

Guðmundur gerði Dani eins og frægt er orðið að ólympíumeisturum karla í handknattleik, vann gullið og tryggði sér um leið sæti í sögubókum Dana enda stærsti sigur karlaliðsins í sögu dansks handknattleiks. Hann fékk fyrir vikið viðurnefnið „Gullmundur“. Nokkrum dögum áður má segja að Wilbek hafi óafvitandi búið til viðurnefnið “Útmundur", en það er einmitt fyrirsögn íþróttablaðsins eins og sjá má á mynd hér neðst í fréttinni.

Fundarhöldin voru tíð hjá Ulrik Wilbek í Ríó.
Fundarhöldin voru tíð hjá Ulrik Wilbek í Ríó. Ljósmynd/Jakob Fannar Sigurðsson

Frétt mbl.is: Brjálæði að brottrekstur hafi komið til tals

Samkvæmt blaðinu voru leikmennirnir sem Wilbek ræddi við þeir Mikkel Hansen, Henrik Møllegaard, Jesper Nøddesbo, René Toft, Lasse Svan og Niklas Landin. Það voru þessir leikmenn sem sögðu nei þegar Wilbek spurði hvort reka ætti Guðmund. Heimildir BT herma einnig að Wilbek rökstyðji fundarhöldin með því að segja að leikmennirnir hafi verið nokkuð óánægðir með Guðmund. Blaðið fullyrðir í raun að leikmennirnir hafi verið þreyttir á afar nákvæmum undirbúningsfundum liðsins fyrir leiki gegn svokölluðum minni spámönnum. Það hafi orðið til þess að leikgleðin væri minni í herbúðum Dana. 

„En leikmennirnir eru óvissir um hvað eigi að gera. Eftir að hafa vegið og metið stöðuna sögðu þeir þó á endanum nei við Wilbek, segir í blaðinu og segja blaðamenn BT, þeir Johnny Kokborg og Søren Paaske, að ástæðan sé sú að leikmennirnir hafi ekki viljað lenda í sömu vandræðum og kvennalandsliðið; að fara á bak við þjálfarann. Svo vildu þeir heldur ekki taka þessa ábyrgð þar sem Wilbek hefði eflaust klínt brottrekstrinum á þá ef allt hefði farið í bál og brand.

Almenn óánægja með Wilbek

Leynifundurinn var þó ekki það eina sem virtist vera að plaga herbúðir Dana á mótinu. Daginn eftir fundinn hittust Guðmundur, aðstoðarmaður hans Claus Hansen og afreksþjálfarinn Claus Hansen og ræddu málin alvarlega og voru á endanum ósammála um það hvernig tækla ætti mótið án þess að BT færi nánar út í þann fund. Blaðið segir hins vegar að Guðmundur hafi ekki sagt orð á æfingunni eftir þennan fund og að hann hafi borðað einn í kvöldmatnum.

Daginn fyrir úrslitaleikinn gegn Frökkum varð svo enn á ný uppi fótur og fit í herbúðum Dana. Bæði leikmenn og Guðmundur voru verulega pirraðir út í Wilbek fyrir ummæli hans við Ritzau-fréttastofuna. Þar sagði Wilbek að „Ef við myndum nú bara líta á úrslitin hefðum við fyrir löngu verið búin að láta reka Guðmund.“ Samkvæmt heimildum BT er almenn óánægja með Wilbek hjá bæði leikmönnum danska landsliðsins og þjálfurum þess og segja þeir að hann hafi skapað meiri óró en ró í Ríó. 

Eins og sagt var frá í gær virðist ólympíugullið, sem Guðmundur á svo stóran þátt í, ekki hafa nægt til þess að róa Wilbek. Daginn eftir sigurinn á Frökkum hóar Wilbek á ný í Nicklas Landin, markvörð danska liðsins, og spyr enn og aftur hvort reka eigi „Íslendinginn“. Landin á á umræddum fundi að hafa bent Wilbek á að þeir hafi rétt í þessu verið að vinna gullið og hann hafi því átt erfitt með að gefa honum svar. Þess vegna hafi Landin kallað á hina leikmennina á stuttan fund til þess að fá að heyra þeirra sjónarmið. Þar hafi þeir allir ákveðið að styðja Guðmund.

Forsíða BT í dag.
Forsíða BT í dag. mbl.is/Pétur

Guðmundur á 10 mánuði eftir af samningi sínum við danska handknattleikssambandið og sagði sjálfur í viðtali við RÚV í gær að hann eigi eftir að gera upp hug sinn hvað varðar framhaldið.

„Samkvæmt þínum heimildum og hvað?“

Sjálfur vill Wilbek ekki staðfesta að hann hafi rætt um brottrekstur Guðmundar í Ríó en hann staðfesti þó að hann hafi rætt við landsliðsmennina án Guðmundar. Wilbek vildi heldur ekki svara hvað hefði farið fram á fundinum. 

Þegar blaðamaður BT segir við Wilbek að heimildamenn hans segi að leikmennirnir hafi sagt nei við brottrekstri Guðmundar var svar Wilbek eftirfarandi: „Samkvæmt þínum heimildum... og hvað?

Wilbek þvertók einnig fyrir öll fundarhöld eftir mótið og segist hafa stutt Guðmund alla tíð eftir bestu getu.

Útmundur?
Útmundur? mbl.is/Pétur Hreinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert