Engin krísa að tapa einum leik

Halldór Harri Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar.
Halldór Harri Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Golli

„Það kom kafli í þetta og ég fékk það á tilfinninguna að við værum að fara að kasta þessu frá okkur. Við hendum frá okkur boltanum og við hleypum trú í Haukana,” voru fyrstu viðbrögð Halldórs Harra Kristjánssonar, þjálfara Stjörnunnar eftir 21:20 tap gegn Haukum í dag.

Stjarnan var með yfirburði í fyrri hálfleiknum og voru sex mörkum yfir að honum loknum. Allt annað Haukalið kom í seinni hálfleikinn. Hægt og rólega átu þær upp forskotið og að lokum komust þær yfir og unnu góðan sigur. Harri segir sóknarleikinn í seinni hálfleik ekki nógu góðan.

„Sóknarleikurinn var í tómu tjóni síðustu 20 mínúturnar og við náum ekki að skila inn marki. Við erum að taka tækifæri sem við eigum ekki að taka.. Það vantaði takt í leikinn hjá okkur. Við skoruðum 12 mörk í fyrri hálfleik en við hefðum átt að vera búin að skora fleiri.”

„Við komumst sex mörkum yfir í seinni hálfleik en við missum tvíveigis leikmann útaf og þær ná fjórum einföldum mörkum á okkur og eftir það náðum við ekki takt í leikinn okkar.”

Harri segir enga krísu vera komna í Garðabæinn enda einn leikur búinn og nóg eftir.

„Við ræddum hvað við gerðum vitlaust og hvað við þurfum að einbeita okkur að. Þetta er fyrsti leikur af mörgum og þetta er engin krísa þó við töpum einum leik.”

Undir lokin fékk Stjarnan tækifæri til að jafna leikinn en boltinn var dæmdur af þeim vegna línu. Harri var ekki sérstaklega ánægður með það inni á vellinum en hann gerði lítið út þeim pirring.

„Ég sá ekki hvort þetta var lína eða ekki en við áttum ekki að hleypa þessu í svona leik,” sagði Harri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert