Kolli át okkur í dauðafærum

Hákon Daði Styrmisson, leikmaður Hauka, skorar eitt marka sinna í …
Hákon Daði Styrmisson, leikmaður Hauka, skorar eitt marka sinna í leiknum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV sigraði Hauka með sex marka mun 34:28 áðan en liðið virkaði sterkari aðilinn allan leikinn. Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var því ekki sáttur í viðtali eftir leik og sagði sína menn þurfa að spila mun betur til að ná í stig í Eyjum.

„Heilt yfir var ÍBV betri aðilinn í dag, það sem situr mest í mér er varnarleikurinn í fyrri hálfleik. Hann var lélegur og þar fór þetta, þeir náðu þessu forskoti og við fáum á okkur 21 mark í fyrri hálfleik. Þar liggur þetta stærst,“ sagði Gunnar eftir leikinn en sóknarleikur ÍBV var frábær í leiknum.

 „Við eigum auðvitað eitthvað inni, en ÍBV er með frábært lið og til að ná í tvö stig hérna í Eyjum þarftu að spila betur en þetta. Auðvitað eigum við eitthvað inni en heilt yfir ekki óánægður með seinni hálfleikinn, við erum að koma okkur í góð færi.“

„Ég gef Kolla [Kolbeinn Aron Arnarson, markvörður ÍBV] „kredit“, hann át okkur í þessum færum, við fengum fullt af tækifærum til að komast inn í leikinn og koma okkur inn í þetta en Kolli sá við okkur. Því fór sem fór.“

 „Eyjamenn komu mér ekkert á óvart i þessum leik. Maður vissi að þetta er frábært lið. Þeir eru með þrjár frábærar skyttur fyrir utan, Kára á línu og tvo frábæra hornamenn. Þetta er gott lið og til að leggja ÍBV að velli þarftu að vera upp á þitt besta og við vorum það ekki í dag.“

Sigurbergur Sveinsson kom til ÍBV fyrir tímabilið, hann er Haukamaður og reyndu þeir að fá hann í sínar raðir?

„Að sjálfsögðu, hann er Haukastrákur en hann kemur hingað og allt í góðu með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert