ÍBV sigraði Gróttu með níu marka mun, 34:25, í fyrsta leik liðanna í Olís-deild kvenna í dag. Þjálfari Gróttu, Kári Garðarsson, var ekkert alltof sáttur við leik síns liðs í viðtali eftir leikinn.
„Nei, ég bjóst ekki við því að við myndum tapa þessu svona stórt. Mér fannst við vera undir pari á öllum sviðum í dag, þó við hefðum bara verið fjórum mörkum undir í hálfleik, þá var fyrri hálfleikurinn ekki vel leikinn af okkar hálfu.“
„Það var margt sem við getum gert mun betur og sérstaklega leikgleðin, baráttan og stemningin sem að var ekki nógu mikil.“
„Ég bjóst við þeim í þessari sókn, sjö á móti sex. Við hendum boltanum nálægt tíu sinnum yfir völlinn og náum ekki að refsa. Þar sem við erum of lengi að bregðast við, skjóta í stangir og markvörðurinn að komast inn í. Hefðum við náð því í gegn og við erum með einhver átta eða níu stangarskot úr hornum eða upplögðum tækifærum sem fara forgörðum. Eins og ég segi kemur mér ekkert á óvart en ÍBV er með hörkulið.“
Grótta missir gríðarlega mikið fyrir tímabilið og hefur í raun ekki náð að fylla þau skörð.
„Við vorum með mikla breidd og gátum horft fram á það að yngri leikmenn myndu taka stærra hlutverk. Breiddin er örlítið minni en við erum með flotta handboltamenn, auðvitað eru margir öflugir leikmenn farnir, heilir fimm eða sex úr byrjunarliðinu.“
Leikmennirnir sem Grótta missir eru einnig gríðarlega stórir karakterar og áfallið því mikið af brotthvarfi þeirra.
„Þær voru flottir karakterar, allar þessar sem eru farnar. Nú þurfa þær næstu að stíga upp, það eru leiðtogar í liðinu og miklir karakterar innan hópsins. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að þær stígi upp, allar.“
„Ég er mjög bjartsýnn að eðlisfari, þó ég sé svartsýnn í augnablikinu. Ég verð fljótur að ná mér af þessu í kvöld og ég held að þetta verði lærdómsríkt og skemmtilegt tímabil sem mun hafa mikið af tækifærum með sér í för. Bæði fyrir einstaka leikmenn og líka tækifæri fyrir mig sem þjálfara, þetta er annar veruleiki heldur en undanfarin tvö eða þrjú ár þar sem við verðum að berjast meira og það er bara spennandi.“
Nú hefur verið fækkað í deildinni og eru einungis átta lið í henni og þá verður úrslitakeppnin einungis á milli fjögurra liða, hvað finnst Kára um þessa breytingu?
„Mér finnst þetta afbragð, ég hef talað fyrir þessu í töluverðan tíma. Þetta þýðir að deildin er gríðarlega krefjandi fyrir okkur að eiga við. Kannski er maður að skjóta sig í bakið með þessu en eins og ég segi þá er þetta gott fyrir handboltann. Þó svo að þessi hafa endað með tíu þá eru fleiri leikir á milli liða sem eru svipuð af getu, ég vona að þetta verði handboltanum til góða,“ sagði Kári um breytt fyrirkomulag í deildinni.