Rauða spjaldið algjör vitleysa

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni, í leik liðsins gegn …
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni, í leik liðsins gegn Haukum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV sigraði Hauka með sex marka mun í dag 34:28. Manna sáttastur eftir leik var Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, en hann brosti hringinn þegar blaðamaður mbl.is spjallaði við hann eftir leik.

„Já þetta er klárlega framar björtustu vonum. Fyrir fram átti ég ekki alveg von á sex marka sigri, við erum ekkert sérstaklega langt komnir á okkar undirbúningstímabili en virkilega góður leikur í dag og menn að klára þetta mjög vel,“ sagði Arnar en hann sagði að þegar Haukar misstu Janus Daða Smárason af velli hefði þetta verið erfitt fyrir þá.

„Vissulega verða Haukarnir fyrir áfalli þegar Janus fer útaf, það skiptir þá gríðarlegu máli, hann er þeirra prímus mótor. Það hjálpaði okkur klárlega töluvert mikið.“

Arnar og ÍBV-liðið í heild létu dómarana fara í taugarnar á sér snemma í leiknum, þar var Sindra Haraldssyni meðal annars vikið af velli með rautt spjald eftir brot á Hákoni Daða Styrmissyni, fyrrverandi leikmanni ÍBV.

„Já alltof mikið, ég líka, mér fannst þetta rauða spjald vera algjör vitleysa og frekar ósanngjarnt. Ég á reyndar eftir að sjá þetta aftur, við vorum óskynsamir í kjölfarið. Vorum of lengi að jafna okkur á þessu, við fengum ódýrar tvær mínútur, bæði ég og leikmenn inni á vellinum. Við megum teljast töluvert heppnir að halda þessu jöfnu á meðan.“

„Um leið og við komum okkur niður á jörðina og róum okkur aðeins þá vorum við góðir. Við erum á svipuðum stað á þessum tímapunkti og í upphafi síðustu leiktíðar að mínu mati,“ sagði Arnar en ÍBV stakk í raun af á köflum í leiknum.

Arnar fékk tvo nýja leikmenn inn í liðið fyrir leiktíðina, þeir Sigurbergur Sveinsson og Róbert Aron Hostert áttu báðir frábæran leik í dag. Þeir sýndu það af hverju menn töluðu um þá sem stærstu bitana á markaðnum.

„Þeir eru hörkuspilarar, engin spurning. Þeir stóðu sig vel, ekki bara þeir, það voru allir að standa sig vel í dag. Ég er ánægður með framlagið hjá öllum í dag og vonandi er þetta það sem koma skal.“

„Við erum búnir að spila svo oft við þá, það er ekkert sem kemur okkur á óvart og við erum ekki að koma þeim á óvart heldur. Þessi lið þekkja hvort annað út og inn og svona verður þetta í vetur. Baráttuleikir og mikill hasar, við unnum þetta í dag og vonandi höldum við því áfram.“ 

„Deildin verður rosalega jöfn í ár og það geta allir unnið alla. Við vitum að þó að Afturelding hafi tapað fyrsta leik þá eru þeir mjög sterkir, Selfyssingarnir eru með frábært og skemmtilegt lið, þeir verða mjög góðir. Akureyri, FH-ingar og Valsarar verða öll sterk."

„Við eigum Fram í næsta leik, stórhættulegur andstæðingur sem menn hafa talað niður, ég er sannfærður um að þeir verði betri en menn halda,“ sagði Arnar um framhaldið hjá ÍBV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert