Strákarnir áttu inni hjá mér

Sveinbjörn Pétursson markvörður varði mikilvæg skot fyrir Stjörnuna á lokakafla …
Sveinbjörn Pétursson markvörður varði mikilvæg skot fyrir Stjörnuna á lokakafla leiksins við Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Strákarnir áttu svo sannarlega inni hjá mér að ég tæki nokkur skot undir lok leiksins. Ég hafði varla klukkað boltann í síðari hálfleik,“ sagði Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar, eftir sigur liðsins á Akureyri, 26:23, í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í dag. Sveinbjörn vaknaði heldur betur til lífsins á síðustu fimm mínútum leiksins og varði eins og berserkur.

Segja má að frammistaða hans hafi skilið liðin að þegar upp var staðið en fram til þess tíma að Sveinbjörn hrökk í gang hafði svo að segja verið jafnt á öllum tölum í leiknum. „Þetta var svo sannarlega rétti tíminn til þess að stíga upp og gefa eitthvað til liðsins,“ sagði Sveinbjörn glaður í bragði eins og samherjar hans eftir fyrsta sigur nýliðanna í deildinni.  Stjarnan fylgdi þar með í kjölfar hinna nýliða Olísdeildarinnar, Selfoss, sem vann Aftureldingu á fimmtudagskvöldið.

Sveinbjörn flutti heim í sumar eftir fjögur ár í herbúðum þýska 2. deildarliðsins EHV Aue. Sveinbjörn lék með Akureyrarliðinu áður en hann flutti til Aue. Hann segir það hafa verið gaman að mæta sínu gamla félagi en ekki séu margir gamlir samherjar eftir í því. „Andri Snær Stefánsson og Sigþór Heimisson eru fyrrverandi samherjar en önnur andlit eru ný. En vissulega var gaman að mæta Akureyri í fyrsta leik eftir að hafa flutt heim.

Það var ekki hægt að biðja um meira, tvö stig gegn gamla liðinu og flott stemning í húsinu. Auk þess sýndum við mikinn karakter í liðinu að vinna eftir hnífjafnan leik í 55 mínútur,“ sagði markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson, sem varði 13 skot í fyrsta leik sínum fyrir Stjörnuna í Olísdeild karla í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert