Tinna svaraði frábærlega

Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka.
Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka, var vissulega mjög sáttur eftir 21:20 sigur á Stjörnunni í Mýrinni í dag. Stjarnan hafði undirtökin í fyrri hálfleiknum og voru 12:7 yfir í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum komst Haukaliðið jafnt og þétt meira inn í leikinn og komust yfir í stöðunni 19:18. Haukar voru sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum dramatískan sigur.

„Auðvitað er gaman að vinna leiki sem eru svona jafnir,” sagði Óskar. Við fögnum meira og þetta er skemmtilegra. Stelpurnar svöruðu mjög vel í seinni hálfleiknum og ég var mjög sáttur við hann en þetta leit ekki vel út á tíma.”

Óskar var með útskýringar af slöppum fyrri hálfleik en hann sagði markmið Haukaliðsins einfaldlega að hafa gaman að því að spila handbolta í seinni hálfleik.

„Við vorum ekki til staðar í fyrri hálfleik. Við erum með nýtt lið og það var spenna í stelpunum en við ákváðum að við ætluðum að hafa gaman af þessu í seinni hálfleik og það gékk svona vel..”

Stjörnunni var spáð titlinum í ár en Óskar segir þær geta spilað töluvert betur en þær gerðu í dag.

„Stjarnan getur eflaust spilað mikið betri leik en þær gerðu í dag. Þær voru mjög góðar í fyrri og við áttum í erfiðleikum með þær. Þeim var spáð titlinum og skiljanlega en við erum ekki að fara að gefa eitt né neitt.”

Tinna Húnbjörg kom í mark Haukaliðsins undir lokin en hún stóð sig mjög vel þegar mest á reyndi.

„Tinna er gríðarlegur karakter, hún getur komið inná og varið. Við erum með tvo góða markmenn. Elín Jóna getur komið inn og varið mjög vel og hún átti frábært tímabil í fyrra. Við ákváðum að skipta núna og Tinna svaraði því frábærlega. Þær vinna vel saman.” sagði Óskar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert