Ótrúlega sætur sigur

Ólafur Gústafsson og Vilhjálmur Halldórsson, forsvarmaður Stjörnunnar.
Ólafur Gústafsson og Vilhjálmur Halldórsson, forsvarmaður Stjörnunnar. Ljósmynd/Hkd. Stjörnunnar

„Þetta var ótrúlega sætur sigur svona í blálokin. Þá gekk Bubbi í hornin og varði sín skot og við nýttum okkar færi í sókninni,“ sagði Ólafur Gústafsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir sigur liðsins á Akureyri, 26:23, í 1.umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Mýrinni í dag. Þetta var fyrsti leikur Ólafs hér á landi í nærri fimm ár en hann flutti heim eftir að hafa leikið með þýsku og dönsku félagsliði.

„Ég nýt þess að spila handbolta á meðan ég get. Það er gaman inn á leikvellinum og vonandi verður svo áfram,“ sagði Ólafur sem átti afar góðan leik. Hann hefur meira og minna verið frá keppni í rúm tvö ár vegna meiðsla.

Ólafur  skoraði sex mörk en átti síðan á anna tug stoðsendinga á félaga sína, flestar á Garðar Sigurjónsson línumann.  „Ég er kominn á fínt ról og náði að taka þátt í undirbúningstímabilinu af fullum krafti. Við höfum stýrt álaginu sem er nauðsynlegt að ég fái meðan ég er að koma mér í leikæfingu,“ sagði Ólafur Gústafsson, leikmaður Stjörnunnar eftir sigur liðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert