FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson fékk þungt högg á vinstri framhandlegginn undir lok viðureignar FH og Vals í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Ásbjörn sagði í samtali við mbl.is eftir leikinn að hann fyndi til verkja í handleggnum og ætlaði nú að fara á slysadeildina og fá tekna mynd af framhandleggnum til þess að fá úr því skorið hvort hann væri brotinn eða ekki.
Ásbjörn harkaði af sér og skoraði að minnsta kosti eitt mark eftir að hafa hlotið höggið en fór af leikvelli eftir að hafa skoraði 26. og næstsíðasta mark FH rúmri mínútu fyrir leikslok. „Ég ætla að fá mynd á þetta í kvöld," sagði Ásbjörn, sem var markahæstur FH-inga í sigurleiknum með sjö mörk, þar af þrjú af síðustu fjórum mörkum liðsins í tveggja marka sigri, 27:25.