„Mér fannst við eiga skilið annað stigið úr leiknum, ekki síst vegna þess að leikmennirnir lögðu sig mjög fram, en því miður tókst það ekki,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals, eftir tveggja marka tap fyrir FH, 27:25, í Kaplakrika í kvöld í lokaleik Olísdeildar karla í handknattleik.
Guðlaugur viðurkennir að markvarslan hafi ekki verið viðunandi hjá Valsliðinu þótt flest annað hafi verið gott að hans mati, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að um fyrsta leik á mótinu er að ræða auk þess sem þrír sterkir leikmenn Vals gátu ekki tekið þátt.
„Markvarslan hefði þurft að vera betri en ég veit að markverðirnir koma sterkir inn í næsta leik. En framlag þeirra hefði mátt vera betra vegna þess að varnarleikur okkar var góður. Hann var til fyrirmyndar,“ sagði Guðlaugur, sem benti á að 18 ára gamall piltur, Bjarni Ófeigur Valdimarsson, hefði leikið stórt hlutverk í vörninni í sínum fyrsta meistaraflokksleik.
„Við sjáum mikið fleira jákvætt eftir þennan leik en neikvætt þrátt fyrir tap. Við eigum eftir að bæta í á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals, í samtali við mbl.is í kvöld.