„Dómgæslan í gær minnti helst á lélegan brandara,“ skrifaði Karl Erlingsson, aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Gróttu í handknattleik kvenna, en hann fór mikinn á samfélagsmiðlum eftir tap liðsins fyrir Haukum í Olís-deild kvenna á laugardag, 29:25.
„Gríðarleg framför hjá HSÍ eða hitt þó heldur, dómararuglið heldur áfram. Þvílíkt rugl. Eigum við ekkert betra skilið? Látum það vera að þessir fábjánar hafa aldrei spilað handbolta sjálfir. En óþarfi að setja hálf vangefið lið í búning og láta þá dæma?“ skrifar Karl í Facebook-færslu, sem síðan var eytt en mbl.is hefur undir höndum.
Og áfram hélt hann þar sem næst var farið í eftirlitsmann HSÍ á leiknum, Kristján Halldórsson.
„Skrípaleikur í boði Kristjáns Halldórssonar. Hvað á þetta fífl að fá að ganga langt í að eyðileggja íslenskan handbolta?“ skrifar Karl meðal annars. Hann kom inn í þjálfarateymi Gróttu í sumar, en hann hefur meðal annars stýrt yngri landsliðum Íslands.
Samkvæmt heimildum mbl.is mun stjórn HSÍ vita af færslunum og mun senda málið til aganefndar.