Snorri Steinn Guðjónsson, leikmaður franska liðsins Nimes, hefur ákveðið að hætta að leika með íslenska landsliðinu í handknattleik. Snorri staðfesti ákvörðunina við mbl.is.
Snorri Steinn er 35 ára gamall og hefur verið helsti leikstjórnandi íslenska liðsins um margra ára skeið. Snorri Steinn var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og var þá meðal annars valinn í úrvalsliðið eftir leikana. Hann var þá markahæstur íslensku leikmannanna með 48 mörk. Hann var jafnframt í liði Íslands sem vann bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki tveimur árum seinna.
Snorri Steinn er uppalinn í Val en hefur verið atvinnumaður í þrettán ár og leikið í Þýskalandi, Danmörku og Frakklandi. Hann byrjaði atvinnumannaferil sinn hjá Grosswallstadt auk þess sem hann lék með Minden og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Í Danmörku spilaði Snorri með GOG og AG Kaupmannahöfn en í Frakklandi hefur Snorri verið á mála hjá Sélestat og nú Nimes.
Sjá frétt mbl.is: Ný andlit í íslenska landsliðshópnum