Grétar Ari til Hauka á ný

Grétar Ari Guðjónsson markvörður er á leið heim í Hauka …
Grétar Ari Guðjónsson markvörður er á leið heim í Hauka eftir stutta veru hjá Selfossi. mbl.is/Eva Björk

Handknattleiksmarkvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson er á leið til Íslandsmeistara Hauka á ný eftir að hafa leikið með Selfossi í Olísdeildinni í handknattleik það sem af er keppnistímabilinu. Þetta hefur mbl.is samkvæmt heimildum. Grétar Ari var lánaður til Selfoss fyrir keppnistímabilið. 

Í stað Grétars Ara munu Haukar lána Einar Ólaf Vilmundarson til Selfoss, en Einar Ólafur hefur verið annar tveggja markvarða Haukaliðsins á leiktíðinni. Einar Ólafur mun þar með standa vaktina ásamt Helga Hlynssyni, markverði Selfoss, í næstu leikjum. Helgi hefur leikið stórt hlutverk í tveimur síðustu leikjum Selfoss þar sem Grétar Ari hefur ekki náð sér á strik. 

Grétar Ari er í landsliðshópnum sem æfir þessa dagana fyrir leikina við Tékka og Úkraínumenn í undankeppni Evrópumótsins. 

Í lok dagsins verður félagaskiptaglugganum í handboltanum hér á landi lokað og verður hann lokaður fram í byrjun nýs árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert