„Nú veit ég hverjir vinir mínir eru“

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. AFP

Ulrik Wilbek, fyrrverandi íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, hefur stigið fram í dagsljósið eftir gagnrýnina í sumar þegar hann á að hafa viljað segja Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara upp starfi á meðan á Ólympíuleikunum í Ríó stóð.

Sjá frétt mbl.is: Fundaði með leikmönnum án Guðmundar

Hann er í löngu viðtali við danska ríkisfjölmiðilinn DR í dag, þar sem hann segist þó ekki vilja fara ofan í saumana á því máli, en vill koma ákveðnum hlutum á framfæri hvað eftirmálin varðar.

„Ég vil ekki að fólk haldi að nú séu afskiptum mínum af handknattleik lokið. Það væri fáránlegt og mér er jafn umhugað um íþróttina núna og áður. Ég vil það besta fyrir handboltann og þess vegna steig ég til hliðar,“ segir Wilbek. Hann segir að aðstæðurnar í sumar sem leiddu til afsagnar hans hafi verið erfiðar.

„Ég hef verið í handboltanum í yfir 30 ár og hef verið mjög glaður og stoltur í starfi. En þetta hafa verið erfiðir tímar en einnig fræðandi. Þess vegna veit ég núna hverjir eru mínir vinir. Það eru einnig margir kunningjar sem hafa sagt við mig að þeir trúi ekki því sem fjölmiðlar hafa sagt og viljað þakka mér fyrir mitt framlag til handboltans,“ segir Wilbek og viðurkennir að síðustu vikur hafi tekið sinn toll.

Ulrik Wilbek og Guðmundur Guðmundsson.
Ulrik Wilbek og Guðmundur Guðmundsson. Ljósmynd/samsett

Fólk vill bara bæta olíu á eldinn

„Ég verð að vera hreinskilinn og suma daga hef ég sagt við strákana mína tvo að ég sé bara svolítið leiður og tali ekki jafn mikið og áður. Ég fór mjög langt niður á tímabili og var ólíkur sjálfum mér. Allar samsæriskenningarnar hafa heldur ekki hjálpað til frá fólki sem er málinu ekki viðkomandi en vill bara bæta olíu á eldinn,“ segir Wilbek.

Það eru þessar samsæriskenningar, eins og Wilbek orðar það, sem fara mest í taugarnar á honum.

„Ég verð reiður þegar fólk fer í manninn en ekki boltann og segir til dæmis að ég hafi bara viljað komast aftur á hliðarlínuna. Það er langt frá sannleikunum og ég hefði heldur ekki getað það [á ÓL] þar sem ég var ekki skráður í þjálfarateymið,“ sagði Wilbek og vill ekki meina að hann hafi skipt sér óeðlilega af.

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. AFP

Hætti fyrir sakir handboltans

„Við vorum með þrjá menn til þess að stjórna liðinu og þeir stóðu sig allir frábærlega. Aðstoðarþjálfararnir hafa verið mjög góð viðbót við Guðmund og ég vildi ekki blanda mér í það. Sem er nákvæmlega það sem fólk heldur að ég hafi gert. Ég hef komið með hugmyndir fyrir liðið en farið mér hægt,“ sagði Wilbek og vildi ekki fara nánar út í málið.

Sjá frétt mbl.is: Wilbek er hættur

En fyrst þú gerðir ekkert rangt, af hverju sagðirðu þá af þér? Það hlýtur að láta málið líta verr út fyrir þig?

„Ég hætti fyrir sakir handboltans. Að halda áfram hefði ekki gert neinum gott og fá allar sögurnar um hvort einhver hagsmunaárekstur væri að eiga sér stað,“ sagði Wilbek meðal annars í ítarlega viðtalinu við DR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert