Guðmundur hættir með Dani

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson hefur ákveðið að hætta sem landsliðsþjálfari Dana í handknattleik þegar samningur hans rennur út við handknattleikssambandið 1. júlí á næsta ári. Þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins.

„Ég hef upplifað margt spennandi með danska landsliðinu og sérstaklega Ólympíugullið í sumar sem var það stærsta. En næsta sumar þegar samningurinn minn klárast hef ég önnur áform um framhaldið,“ sagði Guðmundur.

Morten Stig Christensen hjá danska handboltasambandinu sendi Guðmundi bestu þakkir fyrir störf sín fyrir danskan handbolta síðustu þrjú ár.

„Guðmundur er ótrúlega hæfileikaríkur handboltaþjálfari og sennilega sá eini sem hefur komist tvívegis í úrslit á Ólympíuleikum með tvær mismunandi þjóðir. Þegar við réðum hann fyrst til starfa var markmið hans að ná gulli í Ríó. Það var ótrúlegt afrek sem skiptir miklu í danskri handboltasögu. Guðmundar verður alltaf minnst í danskri íþróttasögu.“

Eins og frægt er orðið reyndi Ulrik Wilbek, fyrrum landsliðsþjálfari og þáverandi íþróttastjóri danska sambandsins, að grafa undan Guðmundi í Ríó í sumar þegar hann fundaði með leikmönnum án hans. Wilbek steig síðar til hliðar sem íþróttastjóri til þess að gefa Guðmundi vinnufrið eins og sagt var.

Sjá frétt mbl.is: „Nú veit ég hverjir vinir mínir eru“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert