Missti móður sína degi fyrir mótið

Þórir Hergeirsson ásamt leikmönnum og aðstoðarfólki sínu eftir sigurinn á …
Þórir Hergeirsson ásamt leikmönnum og aðstoðarfólki sínu eftir sigurinn á Hollandi í úrslitaleik EM í gær. AFP

Þórir Hergeirsson stýrði Noregi til Evrópumeistaratitils í þriðja sinn í gær, þegar EM kvenna í handbolta lauk í Svíþjóð. Degi fyrir mótið bárust Þóri sorgarfréttir.

Móðir Þóris lést rétt áður en mótið hófst og heldur hann heim til Íslands á morgun til að vera viðstaddur jarðarför hennar. Fjölmiðlafulltrúi norska liðsins lét fjölmiðla vita af þessu fyrr á mótinu, en að það væri einkamál Þóris. Selfyssingurinn tjáði sig hins vegar um málið eftir að hafa tekið við gullverðlaununum í gær.

„Móðir mín hefði ekki viljað að það yrði gert neitt mál úr þessu, svo það var af virðingu við hana. Núna held ég heimleiðis vegna jarðarfararinnar. Það er næst á dagskrá,“ sagði Þórir við VG. Hann var spurður hvernig honum hefði gengið að sinna sínu starfi eftir að hafa fengið þessar fregnir:

„Það hefur gengið vel. Ég er með gott fólk í kringum mig og móðir mín hafði verið veik lengi. Það er því gott að hún sé nú lögð til hinstu hvíldar,“ sagði Þórir, sem kveðst ekki hafa viljað stökkva frá Evrópumótinu:

„Nei, það kom ekki til greina. Ég hafði undirbúið þetta mót lengi. Ég hef fengið fullan stuðning frá öllu mínu fólki á Íslandi og hér á mótinu,“ sagði Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka