Helsta markmiðið er sæti í íslenska landsliðinu

Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus.
Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus. Ljósmynd/Ole Nielsen

„Ég byrjaði að æfa með HK ári áður en ég flutti út til Danmerkur fyrir 12 árum,“ sagði handknattleiksmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson, 22 ára gamall og 193 sentímetra hár hornamaður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Århus Håndbold, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í vikunni.

Sigvaldi hefur vakið talsverða athygli í vetur og í fyrra með Árósaliðinu sem hann gekk til liðs við sumarið 2015. Hann er aðal hægri hornamaður liðsins og þykir bæði fljótur og lipur. Sigvaldi skrifaði fyrst undir eins árs samning við Árósaliðið en gerði nýjan tveggja ára samning á þessu ári. „Ég er samningsbundinn liðinu fram á mitt ár 2018,“ sagði Sigvaldi.

Varð eftir þegar fjölskyldan fór heim

Eftir að hann flutti út til Danmerkur fyrir rúmum áratug byrjaði Sigvaldi strax að æfa handknattleik. Fyrir fjórum árum, þegar fjölskyldan flutti heim, ákvað Sigvaldi að verða eftir, bæði til þess að ljúka námi frá menntaskóla en ekki síður í þeim tilgangi að freista áfram gæfunnar í handboltanum. Sigvaldi gekk til liðs við B-deildar lið Vejle á Jótlandi. Vist hans varð skammvinn því liðið lagði upp laupana við gjaldþrot á miðri leiktíð. Sigvaldi lagði ekki árar í bát heldur fór að æfa með Bjerringbro/Silkeborg sem er með bækistöðvar ekki langt frá Vejle. Þar lék hann í eitt og hálft ár og náði nokkrum leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni áður en hann varð á vegi forráðamanna Århus-liðsins.

Ítarlegt viðtal og umfjöllun um Sigvalda má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert