Karen Helga aftur í Haukatreyjuna

Karen Helga Díönudóttir.
Karen Helga Díönudóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karen Helga Díönudóttir, leikstjórnandi Hauka, var mætt aftur til leiks í sínum fyrsta leik í Olís-deildinni í handbolta í vetur, þegar Haukar mættu Selfossi á útivelli í kvöld.

Sjá: Hrafn­hild­ur skoraði 13 mörk í sigri Sel­foss

Ekki stóð til að Karen Helga myndi leika með Haukaliðinu í vetur þar sem hún fór í nám til Danmerkur síðasta haust. Það er ljóst að endurkoma hennar styrkir Haukaliðið verulega og Óskar Ármannsson, þjálfari liðsins, er ánægður með liðsstyrkinn.

„Hún verður reyndar eitthvað stopult með okkur en vonandi eitthvað áfram,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Hún er í námi í Danmörku en það er ekkert sérstakt að gerast þar í boltanum núna þannig að við ákváðum að nýta okkur það. Hún er auðvitað reynslumikill leikmaður og hefur verið algjör lykilmaður hjá okkur á undanförnum árum, þannig að það er gott að geta fengið hana inn aftur.“

Karen Helga byrjaði á bekknum í kvöld en Haukum gekk mun betur í sókninni gegn Selfossliðinu eftir að hún kom inn á, þrátt fyrir að hafa tapað 28:25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert