„Það er tilhlökkun eins og alltaf að fara í Höllina,“ sagði Elías Már Halldórsson, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Aftureldingu sem fram fer á morgun.
„Þetta eru stærri leikir, fleira fólk og umgjörðin stærri. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt,“ sagði Elías, en Haukar og Afturelding hafa barist mikið síðustu ár og meðal annars í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor þar sem Haukar höfðu betur.
„Já, það mun ekkert nýtt dúkka upp í leiknum en liðin reyna kannski að koma hvort öðru á óvart með einhverjum litlum hlutum. En í grunninn þekkjast liðin mjög vel og það er ekkert nýtt að fara að koma upp úr hattinum,“ sagði Elías.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, sagði á fréttamannafundi í aðdraganda leiksins að úrslitaeinvígi þessara liða frá því síðasta vor væri gleymt og grafið. En telur Elías svo vera?
„Ég held hann hafi nú ekki verið að segja alveg satt þegar hann sagði þetta vera gleymt. Við erum alla vega ekki búnir að gleyma því, það var mjög skemmtilegt einvígi og ég vona bara að þessi leikur verði svipaður. Maður vonar alltaf að betra liðið muni vinna.“
Liðin sitja í efstu tveimur sætum deildarinnar og ætti leikurinn því að vera ávísun á góða skemmtun.
„Ef staðan í deildinni segir eitthvað þá eru þetta tvö efstu liðin, það munar einu stigi og það myndi því segja manni það að þetta verður hörkuleikur. Áhorfendur fá þá alveg pottþétt eitthvað fyrir peninginn og ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á handbolta að koma og njóta þess að sjá alvöruleik,“ sagði Elías Már Halldórsson við mbl.is.
Leikur Hauka og Aftureldingar hefst klukkan 19.30 á morgun og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.