Datt út eftir að hafa lent á veggnum

Ólafur Ægir Ólafsson, til vinstri, reynir að stöðva Jóhann Birgi …
Ólafur Ægir Ólafsson, til vinstri, reynir að stöðva Jóhann Birgi Ingvarsson í leiknum í Höllinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar ég lenti á veggnum datt ég út í nokkrar sekúndur,“ sagði Ólafur Ægir Ólafsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is, en hann fékk þungt höfuðhögg í 20:19-sigri Vals á FH í undanúrslitum Coca Cola-bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld.

„Ég fór á milli manna í vörninni, ég veit ekki hvort var ýtt í mig eða ekki en ég steig eitthvað skringilega í löppina og lenti á steinveggnum með andlitið,“ sagði Ólafur Ægir, sem var með mjög sýnilegan áverka í andlitinu þegar blaðamaður ræddi við hann.

Hann bar sig samt vel og segist ekki hafa orðið fyrir neinu teljandi hnjaski.

„Nei, en ég mundi líka ekki segja það hvort sem er. Það er leikur á morgun,“ sagði Ólafur og glotti og reiknaði með að hann væri klár í slaginn á morgun. Hvort það verði á hins vegar eftir að koma í ljós.

Atvikið leit mjög illa út og lá hann lengi eftir og var að lokum borinn af velli. Kallað var á sjúkrabíl, en hann fór ekki með honum heldur sat með lækni inni í klefa. En var hann ekkert skelkaður sjálfur?

„Nei, ég áttaði mig ekki alveg á stað og stund þarna í smá tíma en eftir að hafa verið búinn að róa mig niður og setjast upp þá var ég nokkuð góður,“ sagði Ólafur Ægir Ólafsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert