Stórkostleg endurkoma Aftureldingar

Elvar Ásgeirsson og Jón Þorbjörn Jóhannsson í baráttunni í Laugardalshöllinni …
Elvar Ásgeirsson og Jón Þorbjörn Jóhannsson í baráttunni í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Golli

Afturelding mætir Val í Coca Cola-bikars karla eftir hreint ótrúlegan 29:28 sigur á Haukum í undanúrslitum. Haukar komust mest átta mörkum yfir en mögnuð endurkoma Aftureldingar sá til þess að sigur þeirra í framlengingu varð raunin.

Fyrri hálfleikurinn var jafn allra fyrstu mínúturnar en eftir það var hann eign Hauka. Íslandsmeistaranir breyttu stöðunni úr 2:2 í 6:2 og var Adam Haukur Bamruk sérstaklega sprækur í fyrri hálfleik. Hann virtist geta stokkið upp þegar honum sýndist og oftar en ekki söng boltinn í netinu nokkrum sekúndum síðar.

Haukar héldu áfram að vera sterkari aðilinn eftir því sem leið á hálfleikinn og var munurinn fljótlega orðinn sjö mörk í stöðunni 13:6. Haukar komust mest átta mörkum yfir í fyrri hálfleik en hálfleikstölur voru 18:11. Giedrius Morkunas var mjög sterkur í markinu og varði hann níu skot, þar af þrjú af fjórum vítaköstum sem Afturelding fékk.

Leikmenn Aftureldingar komu mjög vel stemmdir í seinni hálfleikinn og skoruðu þrjú fyrstu mörk hans og breyttu stöðunni í 18:14. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn kominn niður í tvö mörk í stöðunni 21:19 og var leikurinn skyndilega orðinn spennandi.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka skoraði Elvar Ásgeirsson gott mark og minnkaði muninn í eitt mark, 22:21. Þá tók Tjörvi Þorgeirsson til sinna ráða og skoraði tvö mikilvæg mörk í röð og var munurinn þá þrjú mörk og sjö mínútur til leiksloka. Þá skoruðu leikmenn Aftureldingar tvö mörk í röð og var munurinn eitt mark þegar fjórar mínútur voru til leiksloka, 24:23.

Árni Bragi Eyjólfsson var búinn að eiga nokkuð rólegan leik þegar hann jafnaði í 25:25, mínútu fyrir leikslok og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 2:2 síðan leikurinn var jafn. Gunnar Magnússon tók leikhlé og Haukar freistuðu þess að tryggja sér sigurinn. Adam Haukur Bamruk tók á skarið en Davíð Svansson varði frá honum. Afturelding tók leiklhé um leið og voru þá níu sekúndur til leiksloka. Það reyndist of skammur tími og var staðan 25:25 eftir venjulegan leiktíma og því varð að framlengja.

Þar höfðu Aftureldingarmenn betur og leika þeir því til úrslita gegn bikarmeisturum Vals. 

Haukar 28:29 Afturelding opna loka
70. mín. Mikk Pinnonen (Afturelding) skoraði mark Tíu sekúndur eftir!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert