„Þurfti að halda aftur af tárunum“

Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik.
Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Ég var í hraðaupphlaupi og missteig mig mjög illa,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í morgun en hætta er á að hann hafi orðið fyrir alvarlegum meiðslum á æfingu með liði sínu Cesson-Rennes í Frakklandi í gær.

„Ég var sendur beint í röntgenmyndatöku og er ekki brotinn, en verð í gifsi fram yfir helgi og þá fer ég í frekari skoðun á þessu. Líklegt er að liðbönd i ökklanum séu sködduð eða slitin. Það kemur betur i ljós eftir helgina hveru langur tími þetta er sem maður verður frá,” sagði Guðmundur við mbl.is.

Sem fyrr segir var Guðmundur Hólmar í hraðaupphlaupi á æfingu þegar hann missteig sig. Hann bólgnaði fljótt upp og segir sársaukann hafa verið gríðarlegan.

„Ég þurfti að hafa mig allan við til að halda aftur af tárunum. Ég er aðeins skárri í dag, en vel lyfjaður líka,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert