Var einhver handbremsa á mönnum

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hver einasti maður sem tapar með einu marki í undanúrslitum í bikar er alltaf drullusvekktur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir tap fyrir Valsmönnum í undanúrslitum Coca Cola-bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld, 20:19.

„Það sem er sárast í þessu er að við spiluðum bara illa og þetta var langlélegasti leikurinn okkar síðan bara snemma á tímabilinu. Það er mjög biturt að hann komi einmitt á þessum tímapunkti. Það er það sem gerir þetta mjög svekkjandi líka,“ sagði Halldór Jóhann.

FH var þremur mörkum undir í hálfleik, 9:6, en skoraði fimm mörk í röð um miðjan síðari hálfleik og komst yfir. En það var ekki nóg til þess að liðið gæti haldið út.

„Þá gerum við bara aftur of mikið af mistökum, fáum á okkur ódýrar tvær mínútur og fleira. Valsararnir voru bara klókir, náðu að hanga rosalega lengi á boltanum þegar þeir fengu hann og það fór í taugarnar á okkur,“ sagði Halldór Jóhann.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var varnarleikurinn í fyrirrúmi, en að skora 6 mörk í fyrri hálfleik getur ekki gefið góð fyrirheit.

„Það er mjög ólíkt okkur og sýnir hvað Valsararnir voru að spila góða vörn. En það var ekkert í þeirra varnarleik sem kom okkur á óvart, við bjuggumst alveg við þeim svona. Við náðum bara ekki að nýta okkur það sem við ætluðum og það var einhver handbremsa á mönnum. Það voru margir sem voru ekki að finna sig í dag og stundum er það svoleiðis í íþróttum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert