„Ég var ekki búinn að pæla í því. Það er geggjað!“ sagði Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals, þegar blaðamaður minntist á að hann væri skrefi nær því að halda viðurnefninu ríkjandi bikarmeistari eftir sigur Vals á FH, 20:19, í undanúrslitum Coca Cola-bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld.
„Við erum mjög ánægðir með þetta. Við spiluðum hörkuvörn í dag, þú sérð bara að við fengum á okkur sex mörk í fyrri hálfleik og einhver 20 mörk í leiknum. Svo við fengum á okkur fimm mörkum of mikið í seinni hálfleik,“ sagði Orri og glotti. „Við erum bara geggjaðir!“
Valsmenn misstu dampinn svolítið í síðari hálfleik, skoruðu ekki mark í um níu mínútur en fengu fimm mörk á sig þegar FH komst yfir. Var farið að fara um Valsmenn?
„Nei, við erum ekki þannig lið. Við erum alltof rólegir gaurar til þess að láta fara um okkur. Það er bara spurning um að halda kollinum í lagi, þá erum við alltaf inni í leiknum. Við erum aldrei stressaðir á svona augnablikum,“ sagði Orri.
En er ekkert erfitt að halda kollinum í lagi þegar maður fær á sig fimm mörk í röð?
„Jú það er erfitt, líka því þeir voru að skora úr hraðaupphlaupum sem drepur þetta enn frekar. Svo ég viðurkenni að þetta var erfitt, en sigur er sigur. Það var alveg geggjað að hlaupa að stúkunni þegar við tókum þessa trylltu vörn í lokin og tryggðum þetta,“ sagði Orri.
Mótherjinn í úrslitum á morgun verður annað hvort Haukar eða Afturelding.
„Þetta verður geggjað, tvö ólík lið og mig langar að mæta þeim báðum en langar líka ekki að mæta þeim báðum,“ sagði Orri Freyr að lokum við mbl.is.