Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, segir að undanúrslitaleikurinn við Hauka í Coca Cola-bikarnum í handknattleik sem fram fer síðar í dag ætti að vera ávísun á skemmtun.
„Þetta á að vera það. Liðin þekkja hvort annað mjög vel og vita nákvæmlega hvað hitt liðið er að fara að gera. Þetta ræðst því af því hvað menn ná að framkvæma af sínum hlutum og svo spilar dagsformið og stemningin inn í þetta líka. Svo þetta verður mjög áhugavert,“ sagði Einar Andri við mbl.is í aðdraganda leiksins.
Þessi lið mættust í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í vor þar sem Haukar höfðu betur. Á fréttamannafundi fyrir úrslitahelgina sagði Einar Andri að það einvígi væri gleymt og grafið, en Haukamaðurinn Elías Már Halldórsson efaðist um að hann væri að segja alveg satt þar.
„Hann les bara í það eins og hann vill,“ sagði Einar Andri léttur. „Það þýðir ekki að vera að festa sig í því, nú er bara nýtt verkefni fram undan og það er alltaf áskorun að mæta Haukunum,“ sagði Einar og greinir mikla stemningu í Mosfellsbæ.
„Algjörlega. Strákarnir eru mjög spenntir og maður finnur það í umhverfinu líka, bæði hjá þeim sem eru í kringum liðið en hjá stuðningsmönnum og bæjarbúum líka. Fólk veit af þessu og ég trúi því að það muni mæta og láta í sér heyra,“ sagði Einar Andri.
Eins og fram kom hér á mbl.is í vikunni verður Birkir Benediktsson frá á næstunni og Böðvar Páll Ásgeirsson er einnig frá. Hvernig er annars staðan á hópnum?
„Birkir verður ekki með og Böðvar er ekki orðinn leikfær. En aðrir eru klárir og við mætum bara með þann hóp sem er klár og kýlum á þetta þannig,“ sagði Einar Andri Einarsson við mbl.is.
Leikur Hauka og Aftureldingar hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.