Höfum gert þetta áður

Sveinn Aron Sveinsson, hornamaður Vals.
Sveinn Aron Sveinsson, hornamaður Vals. mbl.is/Golli

„Við vissum að varnarleikur og samstaða myndi fleyta sigurliðinu alla leið. Það sem skipti hins vegar mestu máli þegar upp var staðið var að við höfum gert þetta áður, unnið bikarkeppnina,“ sagði Sveinn Aron Sveinsson, leikmaður Vals, eftir sigurinn á Aftureldingu í úrslitum bikarkeppninnar í handknattleik karla í Laugardalshöll síðdegis.

„Allir í Valsliðinu hafa orðið bikarmeistari en sá eini sem unnið hefur bikarinn í Aftureldingarliðinu er maður sem vann bikarinn með okkur,“ sagði Sveinn Aron. „Reynslan hefur sitt að segja. Þess vegna vorum við pollrólegir þótt við lentum undir. Við héldum okkar striki og unnum að lokum,“ sagði Sveinn  Aron sem lauk lofsorði á félaga sína, bræðurna Orra Frey  og Ými Örn Gíslasyni. Þeir hafi bundið saman vörnina. „Þeir eru out of this world þegar kemur að varnarleik. Það er yndislegt að leika vörn með þeim og Alexander Erni Júlíussyni. Maður hefur bara hreinlega ekki áhyggjur af einu né neinu. Þeir sjá um þetta,“ sagði Sveinn Aron enn fremur.

„Það er bara varnarleikurinn sem leggur grunn að sigri í þessum leik og eins í undanúrslitaleiknum við FH í gær. Þá fengum við á okkur 19 mörk, 22 í dag. Engum blöðum er um það að fletta að varnarleikurinn ræður úrslitum,“ sagði Sveinn Aron Sveinsson, bikarmeistari og leikmaður Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert