Stjarnan varð í dag bikarmeistari kvenna í handknattleik í sjöunda sinn eftir eins marks sigur á Fram 19:18 í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöll.
Fram var aldrei yfir í þessum bikarúrslitaleik. Stjarnan skoraði tvö fyrstu mörkin og komst í 9:2 og 11:3 með mjög góðum leik í vörn og sókn í upphafi leiks. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 13:9 fyrir Stjörnuna.
Fram hélt áfram að saxa á forskot Stjörnunnar sem mest var átta mörk eins og áður segir. Frömurum tókst að jafna leikinn 17:17 þegar um tíu mínútur voru eftir. Lokakaflinn var mjög spennandi en þá gerðu líðin ótal mistök og taugaspennan gerði vart við sig fyrir alvöru.
Helena Rut Örvarsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Ragnheiður Júlíusdóttir fékk ágætt skotfæri þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum en skaut í gólfið og yfir mark Stjörnunnar. Garðbæingar héldu boltanum síðustu 20 sekúndurnar og fögnuðu sigri.
Hafdís Renötudóttir stóð sig vel í mark Stjörnunnar og varði 16 skot þar af nokkur mikilvæg á lokakafla leiksins. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði einnig 16 skot í marki Fram.
Helena var markahæst hjá Stjörnunni með 6 mörk og Rakel Dögg Bragadóttir skoraði 5. Ragnheiður var með 7 mörk fyrir Fram og Steinunn Björnsdóttir var með 4.
Stjarnan hélt dampi svo gott sem allan leikinn í vörninni og það tryggði liðinu bikarinn ásamt markvörslu Hafdísar. Stjarnan lenti í vandræðum í sókninni í síðari hálfleik en tókst engu að síður að landa sigri. Fram gerði vel í að vinna sig inn í leikinn eftir að hafa lent átta mörkum undir. Þegar liðið jafnaði tíu mínútum fyrir leikslok þá virðist meðbyrinn vera með Fram en liðinu tókst ekki að ganga frekar á lagið.
Stjarnan sló út Selfoss í undanúrslitum á meðan Fram lagði Hauka.