Valur varð bikarmeistari í handknattleik karla annað árið í röð þegar liðið lagði Aftureldingu, 26:22, í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöll fyrir stundu. Mosfellingar voru marki yfir í hálfleik, 11:10. Valsmenn náðu undirtökunum snemma í síðari hálfleik og eftir það áttu Mosfellingar heldur undir högg að sækja þótt þeim hafi tekist að jafna metin þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka.
Leiðir skildi á síðustu fimm mínútum viðureignarinnar.
Þetta var tíundi sigur Vals í bikarkeppninni í karlaflokki.
Aftureldingarliðið byrjaði leikinn af talsverðum krafti og tók forsytu, m.a. 3:1, og hélt henni fram eftir fyrri hálfleik og var með þriggja marka forskot, 8:5, þegar nærri 20 mínútur voru liðnar. Markverðir beggja liða, Kristófer Fannar Guðmundsson hjá Aftureldingu og Hlynur Morthens hjá Val, voru vel með á nótunum. Sérstaklegag óx Hlyni ásemgin þegar á hálfleikinn leið.
Valsvörnin batnaði þegar á hálfleikinn leið. Baráttan varð gríðarleg og leikmenn fastir fyrir. Mosfellingar hrukku til baka. Valsmenn jöfnuðu metin, 9:9. Eftir það var jafnt fram að hálfleik allt þar til Kristin Bjarkason sá til þess að koma Aftureldingu mark yfir á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks 11:10.
Valsmenn byrjuðu síðari hálfleik af sama krafti og þeir luku þeim fyrri. Vörnin var frábær og lokaði að mestu fyrir sóknartilburði Mosfellinga. Eftir 12 mínútna leik í síðari hálfleik voru Valsmenn komnir þremur mörkum yfir, 16:13.
Aftureldingarliðið sótti til baka og jafnaði metin í 19:19 á 51.mínútu eftir að hafa skipt um vörn og farið í 3/2/1 sem gafst vel í síðari hálfleik gegn Haukum í gærkvöldi. Lengra komust Mosfellingar ekki. Valsmenn höfðu ráð undir hverju rifi hverju. Þeir opnuðu vörn Aftureldingar meðan leikmenn Aftureldingar áttu í mestu vandræðum hinum megin vallarins. Auk þess þá kom Hlynur í mark Vals á ný undir lokin og varði mikilvæg skot.
Svo virtist sem Aftureldingarliðið væri þrotið af kröftum þegar á leikinn leið. Vafalaust hefur framlengdi leikurinn við Hauka setið í leikmönnum liðsins.
Valsmenn höfðu meiri kraft þegar á reyndi og unnu leikinn sanngjarnt þegar upp var staðið. Josip Juic Grgic fór á kostum í sóknarleiknum og skoraði 10 mörk, þar af sjö í síðari hálfleik.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu mbl.is. Tölfræði leiksins er að finna hér að neðan.