„Við vorum óheppnar“

Steinunn Björnsdóttir.
Steinunn Björnsdóttir. mbl.is/Golli

Fyrirliðinn Steinunn Björnsdóttir lék mjög vel í miðri vörn Fram í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni en varð að sætta sig við tap 19:18. 

Fram jafnaði þegar tíu mínútur voru eftir og liðið hafði þá unnið upp átta marka forskot en tókst ekki að ganga á lagið á lokakaflanum. „Við hefðum þurft aðeins meiri aga í sókninni. Mér fannst við stundum taka ótímabær skot en Hafdís var einnig góð í markinu hjá Stjörnunni. Svo voru auðvitað mörg stöngin inn/stöngin út atvik,“ sagði Steinunn og hún var vonsvikin yfir leik liðsins í upphafi leiks þegar Stjarnan náði 11:3 forskoti. 

„Þá var bara allt að hjá okkur, vörn, sókn og markvarsla. Við sýndum góðan karakter að koma til baka og jafna í seinni hálfleikinn. Mikilvægt var fyrir okkur að minnka muninn fyrir hálfleik. Við vorum staðráðnar í að vinna upp forskotið í síðari hálfleik og gerðum það. Við vorum óheppnar myndi ég segja að vinna ekki leikinn. Mér fannst Stjarnan ekki vera betra lið en við í dag, alla vega ekki í seinni hálfleik,“ sagði Steinunn enn fremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert