Guðjón Valur sækir að heimsmeti Kovács

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu fjölmörgum mörkum sínum með íslenska …
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu fjölmörgum mörkum sínum með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Vincent Michel

Þrír íslenskir handknattleiksmenn eru í þeim fámenna hópi sem staðfest hefur verið að hafi skorað yfir 1.000 mörk fyrir landslið sín sem Morgunblaðið hefur tekið saman. Aðeins ein þjóð á jafnmarga leikmenn á þessum lista 1.000 marka manna, en það er Svíþjóð.

Guðjón Valur Sigurðsson er sá markahæsti af Íslendingunum með 1.751 mark í 334 leikjum og er jafnframt næstmarkahæstur í heiminum frá upphafi af þeim sem staðfestar upplýsingar eru um. Guðjón Valur er aðeins 46 mörkum á eftir markahæsta manni sögunnar, Ungverjanum Péter Kovács.

Ólafur Stefánsson skoraði 1.570 mörk í 330 landsleikjum og er sá þriðji markahæsti í heiminum frá upphafi, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Kristján Arason er þriðji Íslendingurinn á listanum, með 1.123 mörk í 245 landsleikjum.

Kristján varð fyrstur Íslendinganna þriggja til að rjúfa 1.000 marka múrinn. Það gerði hann í sigurleik á Sviss, 16:13, í Strassborg í B-heimsmeistarakeppninni 21. febrúar 1989. Með því að líta yfir markaskoraralistann má leiða líkur að því að Kristján hafi verið einn fimm fyrstu handknattleiksmanna heims til þess að skora 1.000 mörk fyrir landslið sitt og sennilega fyrsti Norðurlandabúinn.

Aðeins fjórir leikmenn hafa skorað yfir 1.500 mörk á landsliðsferlinum. Auk Kovács, Guðjóns Vals og Ólafs skoraði danski hornamaðurinn Lars Christiansen 1.503 mörk á 20 ára ferli með danska landsliðinu í 338 landsleikjum.

Sjá ítarlega úttekt á markahæstu leikmönnum heims með landsliðum sínum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert