Í landslið á mettíma

Perla Ruth Albertsdóttir segist hafa tekið miklum framförum í vetur.
Perla Ruth Albertsdóttir segist hafa tekið miklum framförum í vetur. mbl.is/Golli

Handboltaferill hinnar 20 ára gömlu Perlu Ruthar Albertsdóttur er nokkuð sérstakur. Aðeins rétt rúm þrjú ár eru síðan hún byrjaði að æfa handbolta, fyrir áeggjan kærasta síns og systra hans, og síðan þá hefur hún orðið að lykilmanni í liði Selfoss í Olísdeildinni auk þess að vera boðuð á æfingar hjá U20-landsliðinu sem og A-landsliðinu, nú síðast í janúar.

„Ég fór í framhaldsskóla á Selfossi og kynntist þar kærastanum mínum, Erni. Öll hans fjölskylda er í handbolta og systur hans drógu mig með á æfingu,“ segir Perla, sem alin er upp á Eyjanesi í Húnaþingi vestra í stórum systkinahópi. Örn Þrastarson, kærasti Perlu, er bróðir þeirra Hrafnhildar Hönnu og Huldu Dísar sem leika með Perlu í Selfossliðinu.

„Ég var ekki viss með handboltann fyrst. Ég þarf alltaf að ná hlutunum strax. En Örn fór bara með mig á æfingar á kvöldin og lét mig læra þetta. Kasta boltanum hundrað sinnum í vegg og svona. Þetta varð svo alltaf skemmtilegra og skemmtilegra þegar það fór að ganga vel,“ segir Perla, sem skoraði þrjú mörk fyrir Selfoss þegar liðið vann góðan sigur á Val, 27:24, um helgina í 18. umferð Olísdeildarinnar. Sigurinn var mikilvægur fyrir Selfyssinga í fallslagnum sem þeir standa í.

„Við slökuðum einhvern veginn allt of mikið á í seinni hálfleik og hleyptum þeim tveimur mörkum fram úr okkur, en á síðustu 10-15 mínútunum náðum við að jafna og skora síðustu þrjú mörk leiksins. Við spiluðum geðveika vörn á þessum lokakafla,“ segir Perla.

Nánar er rætt við Perlu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert