Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að yfirgefa Fylki og leika með Volda í Noregi á næsta keppnistímbili. Þjálfari Volda er Halldór Stefán Haraldsson. Hann tók við liðinu fyrir ári eftir að hafa þjálfað kvennalið Fylkis í fimm ár. Hann þekkir því vel til Theu sem er örvhent skytta sem stendur á tvítugu.
Þetta hefur mbl.is samkvæmt heimildum.
Volda varð í öðru sæti C-deildar í Noregi á dögunum. Stefnan er að styrkja liðið til viðbótar og fara uppí B-deild að ári. Samningurinn við Theu er fyrsti liðurinn í styrkja Volda-liðið.
Thea Imani var markahæsti leikmaður Fylkis í Olís-deildinni í vetur. Hún skoraði 144 mörk í 21 leik. Það dugði skammt þar sem Fylkisliðið féll úr deildinni.
Halldór Stefán fékk á dögunum viðurkenningu frá Volda á lokahófi félagsins, svokallaðan Bakkeprisen sem veittur er þeim talinn er hafa lyft Grettistaki í starfssemi félagsins undanfarið ár.