Guðmundur tekur við Bahrein – myndskeið

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur og Íslands í handknattleik karla, mun að öllum líkindum taka við landsliði Persaflóaríkisins Bahrein og stýra því næstu mánuðina.

Guðmundur hætti sem kunnugt er störfum hjá Dönum fyrir skömmu en liðið var óvænt slegið út af Ungverjum í 16-liða úrslitum HM í Frakklandi í janúar. Danir urðu hins vegar ólympíumeistarar undir stjórn Guðmundar á síðasta ári og hann fékk silfur með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008. 

Handknattleikssamband Bahrein skýrði frá því í kvöld á Twitter-síðu sinni að Guðmundur væri kominn til landsins og birtar voru ljósmyndir og myndskeið af honum í flugstöðinni, nýlentum eftir ferðalag frá Íslandi.

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að um tímabundna ráðningu sé að ræða, til sex eða sjö mánaða, og hlutverk Guðmundar verður þá væntanlega að stýra Bahrain í lokakeppni Asíumótsins í janúar 2018. Þar hefur Bahrein hlotið silfurverðlaun á undanförnum tveimur mótum, 2014 og 2016, í bæði skiptin eftir ósigra gegn Katar í úrslitaleik.

Þá hefur Bahrein komist í lokakeppni HM tvisvar í röð en dró sig reyndar út úr mótinu í Katar árið 2015 af pólitískum ástæðum, með þeim afleiðingum að Íslandi var boðin þátttaka í staðinn. Liðið endaði í 23. sæti af 24 liðum í lokakeppni HM í janúar á þessu ári.

Guðmundur mætti þá liði Bahrein í riðlakeppninni en Danir unnu þar frekar nauman sigur, 30:26. Bahrein tapaði þó öllum leikjum sínum á mótinu þar til liðið vann Angóla, 32:26, í leik um 23. sætið.

Hér fyrir neðan má sjá bæði myndskeið og myndir sem teknar voru á flugvellinum í Bahrein í kvöld og tekið var á móti Guðmundi sem væntanlega ræðir við handknattleikssamband Bahrein á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert