Katastrófa og handboltanum til skammar

Orri Freyr Gíslason og Alexander Örn Júlíusson Valsmenn í leiknum …
Orri Freyr Gíslason og Alexander Örn Júlíusson Valsmenn í leiknum í Turda í dag mbl.is/Mircea Rosca/ActionFoto.ro

„Dómgæslan var katastrófa frá upphafi til enda. Hún var öll á bandi Turda,” sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals, eftir níu marka tap, 32:23, fyrir Turda í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik í Turda í dag. Valur er þar með úr leik í keppninni.

„Auk þess sem dómgæslan var óhagstæð okkur, öll á bandi Turda þá lékum við ekki nógu vel og tókst ekki að höndla aðstæður eins og best varð á kosið. Við vorum stressaðir og æstir í dauðafærum. En á móti kemur að það voru dæmd á okkur skref og ruðningur og annað sem við þekkjum ekki. Á sama tíma fengum við ekkert hinum megin vallarins," sagði Guðlaugur og bætir við að frammistaða dómaranna sé sérstaklega sorgleg fyrir handknattleiksíþróttina í heild sinni. „Svona nokkuð hélt ég að væri úr sögunni og hafði bara heyrt sögur af þessu frá í gamla daga,” sagði Guðlaugur.

„Ég er stoltur af mínu liði og strákunum en því miður þá áttu þeir við ofurefli að etja á öllum vígstöðvum að þessu sinni,” sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, eftir tapleikinn í Turda í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert