„Ég fann nú fyrir því í fyrstu sókn þegar hrint var á bakið á mér í opnu færi í horninu og ég fékk aðeins aukakast að eitthvað skrýtið var í gangi,” sagði Sveinn Aron Sveinsson, hornamaður Vals, eftir tapið í Turda í dag. Sveinn Aron fékk rautt spjald í síðari hálfleik þegar honum var vísað af leikvelli, fyrst fyrir leikbrot og síðan það eitt að brosa í framhaldi að brottrekstrinum.
„Hinsvegar var strax tekið hart á okkur hinum megin vallarins. Við vorum komnir með þrjú gul spjöld eftir þrjár mínútur eða svo. Leikmenn Turda fengu sitt þriðja gula spjald um miðjan síðari hálfleik og sinn eina brottrekstur skömmu síðar. Þá notuðu dómararnir tækifærið til þess að reka Anton Rúnarsson af leikvelli til þess að jafna fjölda leikmanna á vellinum,” sagði Sveinn Aron sem segir engan vafa leika á að framkoma dómara í þessum leik geri aðeins það eitt að draga úr trúverðugleika handboltans.
„Evrópska handknattleikssambandið verður að hafa bein í nefinu til þess að uppræta rugl af þessu tagi og sjá til þess að félög af þessu tagi sem beita svona meðulum eigi ekki að fá að taka þátt í Evrópumótum félagsliða. Meðan sóðaskapur af þessu tagi líðst þá verður handboltinn ekki merkilegri íþrótt en þetta, því miður,” sagði Sveinn Aron Sveinsson, leikmaður Vals.