Valsmenn ætla að kæra framkvæmd leiks félagsins við Poatissa Turda í undanúrslitum Áskorendakeppninnar í handknattleik. Auk þess er það skoðun þjálfara liðsins að félagið eigi aldrei að taka aftur þátt í Áskorendakeppni Evrópu.
Valur tapaði leiknum með níu marka mun og þykir þjálfurum Vals augljóst að maðkur sé í mysunni hjá dómurum leiksins. Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Vals, staðfesti við mbl.is í Turda í kvöld að kæra vegna framkvæmdar leiksins yrði send Handknattleikssambandi Evrópu í fyrramálið.
Valsmenn hafa þegar haft samband við lögfræðing vegna kærunnar auk þess sem þeir hafa fimm upptökur frá leiknum sem stuðst verður við. „Forráðamenn Turda er rólegir yfir þessum áætlunum okkar því reikna má alveg eins með að það eina sem kemur út úr kæru okkar sé að dómararnir fái ekki fleiri Evrópuleiki. Mér finnst frammistaða dómaranna fyrst og fremst sorgleg fyrir handboltann,“ sagði Óskar Bjarni.
„Það er sorglegt fyrir strákana í liðinu að tapa á þennan hátt. Ef þeir hefðu bara tapað í jöfnum leik en svona. Það er leiðinlegt að svona nokkuð skuli gerast í þessari skemmtilegu íþrótt,“ sagði Óskar Bjarni sem reiknar ekki með að Valsmenn taki aftur þátt í Áskorendakeppninni þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn á leiktíðinni sem þeir verða fyrir afar óhagstæðri dómgæslu, það er að dómarar dragi á augljósan hátt taum annars liðsins.
„Við lentum í svipaðri uppákomu í Svartfjallalandi í vetur. Ég reikna með að við látum EHF vita að við munum ekki taka þátt í þessari keppni aftur að fenginni þessari reynslu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson sem var æfur af bræði þegar flautað var til leiksloka í Turda í kvöld.