„Þetta var of augljóst og of illa gert til þess það megi ekki öllum vera ljóst að hér var ekki allt með felldu,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir tapið fyrir Turda í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik karla í Turda í kvöld, 32:23. Valur er þar með úr leik með sem nemur einu marki í tveimur viðureignum.
„Ég er mjög sár og mun sennilega aldrei jafna mig á þessum leik,” sagði Óskar sem viðurkennir þó að Valsmenn hafi fallið í gildruna í fyrri hálfleik. “Kannski eðlilega vegna þess að menn voru sárir og svekktir hvernig komið var fram við okkur. Ég er samt þeirrar skoðunar og við hefðum alltaf tapað með níu marka mun, hvernig sem við hefðum leikið.”
Óskar sagði að Valsliðið hefði gert sig sekt um slakan leik í síðari hálfleik og farið illa að ráði sínu í mörgum góðum tækifærum. „Við löguðum hinsvegar margt í síðari hálfleik og náðum muninum niður í fimm mörk. Þá byrjaði ballið á ný og okkur var straujað út úr keppninni,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson, sem marga fjöruna hefur sopið á þjálfaraferli sínum.