Valsmenn hafa ákveðið að kæra ekki framkvæmd síðari leiks liðs félagsins og Potaissa Turda í umdanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik sem fram fór í Turda í gær.
Þess í stað ætlar félagið að senda Handknattleikssambandi Evrópu harðorð mótmæli vegna framkvæmdar leiksins og frammistöðu tékknesku dómaranna sem drógu taum Turda-liðsins, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
„Lögfræðingur okkar hefur farið yfir kærur til EHF vegna svipaðra mála og þar ber allt að sama brunni. Málunum virðist stungið undir teppið eða eitthvað þvíumlíkt,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is í Turda í morgun áður en Valsliðið fór frá Rúmeníu.
„Eftir að hafa farið yfir málið og rætt við nokkra reynda menn innan hreyfingarinnar er niðurstaða okkar að senda kröftug mótmæli til EHF og láta þar við sitja. Kæra þjónar ekki tilgangi, því miður. Við erum hins vegar ekki tilbúnir að sætta okkur við framkomuna þegjandi og hljóðalaust,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik karla.
Potaissa Turda vann leikinn 32:23 og fór því í úrslit keppninnar á einu marki samanlagt en Valur vann fyrri leikinn 30:22.