Smásjokk að fá þetta símtal

Stephen Nielsen vann sér sæti í landsliðshópnum með frammistöðu sinni …
Stephen Nielsen vann sér sæti í landsliðshópnum með frammistöðu sinni hjá ÍBV í vetur. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mér finnst þetta ótrúlega stór heiður. Ég er rosalega stoltur og ætla að gera allt sem ég get til að standa mig vel fyrir þjóðina. Vonandi getum við tekið tvö stig á fimmtudaginn og aftur á sunnudaginn,“ sagði Stephen Nielsen sem verður annar tveggja markvarða Íslands í leiknum við Makedóníu á fimmtudag í undankeppni EM í handbolta.

Stephen var kallaður til eftir að Aron Rafn Eðvarðsson varð frá að hverfa vegna meiðsla. Stephen kom til Grosswallstadt í Þýskalandi í gærkvöld og náði tveimur æfingum með íslenska liðinu í dag, en hópurinn heldur til Skopje í fyrramálið og mætir þar Makedóníumönnum á fimmtudag í afar mikilvægum leik. Það verður fyrsti mótsleikur Stephens, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt í árslok 2015 og á að baki einn vináttulandsleik.

„Svona hlutir eru bara bónus. Ég bjóst kannski ekki við að þetta myndi gerast en því miður meiddist Aron. Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri og vonast til að geta gert mitt til að hjálpa liðinu að vinna,“ sagði Stephen við mbl.is í dag, eftir seinni æfingu landsliðsins.

Arnar búinn að halda okkur vel í gangi

Stephen leit vel út á æfingunni og þvertók fyrir að hafa verið farinn að slaka á í sumarfríi eftir að lið hans, ÍBV, féll úr leik á Íslandsmótinu:

„Arnar Pétursson [þjálfari ÍBV] er búinn að halda okkur vel í gangi eftir tímabilið, svo maður var ekkert hættur að æfa. Svo vissi maður líka að maður væri í varahóp landsliðsins og þyrfti að vera til taks, en það var samt smásjokk að fá þetta símtal,“ sagði Stephen og brosti. Hann kveðst njóta þess að vinna með Björgvini Páli Gústavssyni, sem verið hefur aðalmarkvörður landsliðsins í tæpan áratug:

Stephen Nielsen hefur verið viðloðandi landsliðið eftir að hann fékk …
Stephen Nielsen hefur verið viðloðandi landsliðið eftir að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt í lok árs 2015. mbl.is/Styrmir Kári

„Að sjálfsögðu. Hann er frábær gaur og maður með mikla reynslu sem ég get lært mikið af. Það er mjög einfalt að vinna með svona manni,“ sagði Stephen. Ekki var annað að sjá en að hann félli vel inn í hópinn:

Ótrúlega gaman að fá að spila með svona mannskap

„Þetta eru gríðarlega flottir handboltamenn sem spila með stórliðum og maður verður að vera tilbúinn. Persónulega finnst mér bara ótrúlega gaman að fá tækifæri til að spila með svona mannskap. Það er svo einfalt mál að koma inn í þennan hóp, því þetta eru frábærir strákar sem taka frábærlega á móti manni,“ sagði Stephen. Aðspurður hve vel hann þekkti makedónska liðið, sem hann vissi ekki fyrr en í þessari viku að hann væri að fara að mæta, svaraði Stephen:

„Maður fylgist með handbolta svo maður veit ýmislegt um liðið, og auðvitað að þar er fremstur í flokki Kiril Lazarov. Þeir eiga líka frábæran markvörð úr Barcelona í Borko Ristovski. Þetta er mjög flott lið sem erfitt er að mæta, sérstaklega í Makedóníu. Ég hef ekki alveg haft tíma til að undirbúa mig varðandi hvern og einn leikmann, eins og maður gerir fyrir leiki, en nú fer ég í það. Þetta verður bara skemmtilegt verkefni og vonandi tökum við sigur.“

Stephen Nielsen er 32 ára gamall, fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann kom til Íslands sumarið 2013 þegar hann samdi við Fram, og hafði þá meðal annars verið á mála hjá Flensburg í Þýskalandi, en einnig leikið í Danmörku og Svíþjóð. Þá hafði hann orðið heimsmeistari með danska U21-landsliðinu. Hann er giftur Eddu Sigfúsdóttur og eiga þau einn son.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert